Áramótaferð í Bása 2012

10. janúar 2013

Áramótaferð 2012 - 2013

Síðasta laugardag ársins 2012 lagði rúta af stað úr bænum. Hún flúði vonda veðrið þar og keyrði austur í blíðuna. Ferðin gekk mjög vel og var klukkan ekki nema rétt rúmlega eitt þegar keyrt var í hlaðið í Básum.

Þegar allir höfðu komið sér vel fyrir og fengið sér smávegis í gogginn var lagt af stað í göngu, meðfram Básalæknum að Álfakirkju og til baka. Um kvöldið var sungið, spilað, dansað og spjallað. Næsta dag var Básahringurinn genginn, inn í Fjósafuð og inn í Strákagil að Álfakirkjunni þar. Eftir nestispásu var gengið til baka og veginum fylgt inn að Hrunaá, þangað til Krossá og Hrunaá stoppuðu gönguhópinn af. Mikill snjór var á staðnum og var því ekki auðvelt að ganga. Veðrið var dásamlegt, fallegt og stillt. Ekki höfðu allir gengið nóg og fóru því nokkrir upp undir Fálkhöfuð, aðeins áleiðis upp á Fimmvörðuháls. Þeir voru svo hugulsamir að troða fyrir nokkra í hópnum sem höfðu lagt af stað í meira krefjandi göngu í kringum Útigönguhöfða og áttu eftir að komast niður þessa leið síðar.

Um kvöldið var farið í ævintýralega blysför inn að Strákagili. Allir voru með blys og leiðin var upplýst með útikertum. Það var stjörnubjart og næstum fullt tungl.

Á gamlársdag keyrði Jói rútubílstjóri hópinn yfir Hvanná, svo hópurinn komst að göngubrúnni yfir Krossá þurrum fótum. Við Sigurðarskála skiptist hópurinn í tvennt, sumir fóru upp á Valahnúk, aðrir beint yfir í Húsadal. Enginn hafði munað eftir sundfötum og handklæði og því var ekki farið í heitan pott. Þegar Valahnúkshópurinn kom niður var gengið til baka. Tveir í hópnum voru það öflugir að þeir klifruðu tvisvar upp í Snorraríki.

Um kvöldið var haldin kvöldvaka, farið á brennu og gamla árið kvatt með flugeldasýningu. Á nýársdag var keyrt í bæinn aftur.

 Marrit Meintema  var fararstjóri og sendi myndirnar.