Í dag hleypum við af stokkunum nýrri ferðaáætlun fyrir Ferðafélagið Útivist, en meginmarkmið félagsins er að auðvelda almenningi að upplifa og njóta sín í íslenskri náttúru í góðra vina hópi. Eins og sjá má af þessari metnaðarfullu áætlun leggjum við mikla áherslu á að ná til sem flestra, bæði þeirra sem nýjir eru í útivistariðkun sem og reynsluboltanna, þannig að tekið sé tillit til ólíkra þarfa félagsmanna.
Með breiðu úrvali af tækifærum til að njóta samverunnar úti í náttúrunni, hvort sem það er á göngu, í hjólaferðum, í ferðum á breyttum og óbreyttum jeppum eða á skíðum viljum við skapa jákvæð tækifæri til uppbyggilegrar samveru fólks með ólíkan bakgrunn.
Eftir nokkuð erfið ár vegna kórónaveirufaraldursins hefur félagið náð aftur fyrri styrk. Félagsmenn og almenningur hefur tekið einkar vel framboði okkar á útivistartækifærum í ár.
Þannig hefur mikil aukning verið í reglubundnu hópastarfi og ferðum sem og í skálagistingum. Eftir miklar breytingar á aðstöðu okkar í Básum með rafvæðingu og stóraukinni þjónustu hafa umsvif og áhugi aukist til muna, bæði meðal almennings og ferðaþjónustuaðila. Ljóst er að félagið hefur töluverða möguleika á að auka þessa þjónustu enn frekar á komandi árum, jafnt að sumri sem vetri.
Útivist hefur í samstarfi við Flugbjörgunarsveitina í Reykjavík unnið að uppbyggingu skála í Tindfjöllum, Tindfjallaseli og er skálinn nú kominn með formlegt starfsleyfi. Þessi staðsetning býður upp á mikla og fjölbreytta möguleika bæði að vetri og sumri.
Í þessari áætlun gefur einnig að líta nýjungar í hópastarfsemi og hefur mikið af nýju og ungu fólki komið til starfa hjá okkur með frábærar hugmyndir og orku til að endurnýja framboð félagsins og ná til sem flestra. Um leið og ég býð allt þetta fólk velkomið til starfa er ég fullviss um að það verður gaman að vinna með því við að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd.
Það er von mín að þessi áætlun fyrir árið 2023 leggi grunn að því að við getum átt góðar stundir með nýjum og gömlum félögum úti í okkar fallegu náttúru.