Skáli byggður í Básum

Allt frá stofnun Útivistar 23. mars 1975, var það hugsjón félagsmanna að byggja skála í óbyggðum með gistiaðstöðu fyrir félagana, og aðra er leggja land undir fót til að njóta ósnortinnar náttúru öræfanna.  Hugað var að ýmsum stöðum en fljótlega staðnæmst við Þórsmörk, eða nærliggjandi svæði.  Kom þar margt til.  Þórsmörk hefur hlotið sess í hugum okkar flestra, sem einn fegursti, friðsælasti og stórbrotnasti staður landsins.  Þangað er tiltölulega auðvelt að komast á öllum árstímum.  Fjarlægðin er ekki meiri en svo, frá höfuðborgarsvæðinu, að aka má þangað auðveld-lega á einu síðdegi.  Fjölbreytni er þar mikil í landslagi, svo að allir geta fundið þar gönguleiðir við sitt hæfi.

Fyrsta sumarið sem Útivist starfaði höfðum við aðsetur við Strákagil.  Næsta sumar, 1976, fluttum við okkur um set, og höfðum aðsetur í Stóraenda.  Þar vorum við fjögur sumur.  Á báðum stöðum eru vatnsból ótrygg svo ekki þótti ráðlegt að byggja þar skála.

Vorið 1980 hófum við viðræður við Sigurð Blöndal skógræktarstjóra um annan stað á Þórsmerkursvæðinu, fyrir skálabyggingu.  Þeim viðræðum lauk þannig að félagið fékk leyfi til að byggja skála undir Bólfelli á Goðalandi, á einum fegursta stað sem til er á Þórsmerkursvæðinu.

Þegar leyfi opinberra aðila fyrir skálabyggingu var fengið, tók Ólafur Sigurðsson, arkitekt, að sér að teikna skálann.  En til þess að byggingin félli sem best að lands-laginu fór Ólafur á vettvang og kynnti sér staðhætti.
Ólafur er þekktur arkitekt og fagurkeri, og það er samdóma álit allra sem séð hafa, að vel hafi til tekist, og að skálinn sómi sér á þeim fagra og yndislega stað sem hann stendur á.  Grunnur skálans var grafinn helgina 4. – 6. júlí, en næstu helgi á eftir, 11. – 13. júlí voru undirstöður og sökklar steyptir.  Helgina 18. – 20. júlí var hafist handa við tréverkið, og síðan var unnið að byggingunni flestar helgar sumarsins og fram á haust.  Slegið var upp fyrir reykháfnum og hann steyptur, helgarnar 3. – 5. október og 10. – 12. október.  Húsið var þá fullbúið að utan með járni á þaki, þakrennum, niður-föllum og tvöföldu gleri í öllum gluggum.  Hér var vel að verki staðið og unnið af miklum dugnaði og gleði.  Samtals var unnið að skálabyggingunni í þrettán helgar.

Mest af burðarviðum skálans er úr gömlu timburhúsi, sem stóð við Grettisgötu í Reykjavík.  Eiríkur Eiríksson, trésmíðameistari, aðstoðaði við uppsetningu þeirra, en hann og sonur hans , Eiríkur, höfðu rifið húsið.
Yfirsmiður við skálabygginguna er Hallgrímur Benediktsson húsasmíðameistari.

Formaður Útivistar, Þór Jóhannsson, húsgagnabólstrari, hefur verið byggingarstjóri frá byrjun.
Skálinn er um áttatíu fermetrar að flatarmáli, með háu porti og stórum kvisti á rishæð-inni.  Þannig nýtist svefnloftið uppi mjög vel.  Reykháfur er steyptur, en mikill burðarás gengur um skálann endilangan og hvíla loftbitarnir á honum.  Að utan er skálinn súðbyrtur – standandi rennisúð.

Öll vinna við skálabygginguna hefur verið innt af höndum sem sjálfboðastarf, en félagið kostaði ferðir og fæði.  Það má segja, að allar þær helgar sem unnið var hafi verið veislumatur á borðum.

Útivist á lítið hús, sem stendur á stálgrind.  Það var flutt inneftir og notað fyrir vinnu-skúr og mötuneyti og einnig sem svefnskáli yfirmanna á staðnum.  Þar voru einnig haldnar kvöldvökur þegar vinnu var lokið á laugardögum.
Félagskonur önnuðust matseld af mikilli snilld.  Oftast voru tvær eða þrjár ráðskonur sem töfruðu fram gómsæta rétti, um miðjan dag og á kvöldin, en kaffi var drukkið þar á milli með smurðu brauði og öðru meðlæti.  En á morgnana vakti Hallgrímur Benediktsson, yfirsmiður, mannskapinn með nýsoðnum hafragraut, eggjum, súrum hrútspungum og slátri.
Það var mál manna að maturinn væri mikill og góður, enda varð svo að vera, því mikið var unnið, og ekki skeytt um vinnutíma ef ljúka þurfti einhverju ákveðnu verki.  Konur og karlar gengu jafnt í hvaða verk sem var og var samstarfið og félagsandinn til fyrirmyndar.

Félagið á þessu fólki sem þarna vann mikið upp að unna, enda reis skálinn á ótrúlega stuttum tíma.
Við eigum margar góðar minningar frá sumrinu, tengdar skálabyggingunni.  En enn þarf að leggja hönd að verki, því skálinn verður að vera fullbúinn sem fyrst í vor.

Þess má að lokum geta að við höfum nú fengið lóðarsamning fyrir skálann, staðfestan af Sigurði Blöndal skógræktarstjóra og Pálma Jónssyni landbúnaðarráðherra.

                                                                 Með félagskveðju,
                                                                 Jón I. Bjarnason.