Saga Útivistar

Félagið Útivist var stofnað sunnudaginn 23. mars 1975 á fundi í Lindarbæ í Reykjavík þar sem mættir voru 54 stofnfélagar. Á fundinum voru samþykkt lög félagsins og kosnir 25 félagar í Kjarna og 6 til vara. Að loknum þeim fundi hélt Kjarninn sinn fyrsta fund og kaus 3ja manna stjórn félagsins sem skipuð var Einari Þ. Guðjohnsen, Jóni I. Bjarnasyni og Þór Jóhannssyni. Síðan fundaði stjórnin í fyrsta skipti og skipti með sér verkum þannig að Þór var formaður, Jón ritari en Einar meðstjórnandi og jafnframt framkvæmdastjóri félagsins.

Sótt var um starfsleyfi til ráðuneytis og viðurkenningu á félaginu sem ferðafélagi. Var sú umsókn staðfest og barst stjórn Útivistar hinn 13. maí 1975. Fyrsta húsnæði félagsins var að Lækjargötu 6a í Reykjavík.

Fyrsta ganga Útivistar var á Keili hinn 6. apríl 1975. Fararstjóri í þeirri ferð var Gísli Sigurðsson sem var reyndur fararstjóri, fróður og manna kunnugastur á þessum slóðum. Allar götur síðan hefur verið farin afmælisganga á Keili.

Árið 1981 var lögum breytt í því skyni að fjölga í stjórn félagsins. Stjórnarmenn urðu þá fimm talsins og þrír til vara. Sú skipan stjórnar hefur verið óbreytt síðan. Varamenn sitja stjórnarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt nema þeir leysi af fjarverandi stjórnarmann.

Í 2. gr. laga félagsins, sem samþykkt voru á stofnfundi, segir að tilgangur félagsins sé að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi. Í 3. gr. laganna er kveðið á um hvernig félagið hyggist ná þeim tilgangi sínum. Þar á meðal er að “koma upp gistiskálum, sem auðvelda ferðir og útivist á Íslandi”. Strax á stofnfundi beindust sjónir manna að Þórsmörk, en skiptar skoðanir voru um staðarval í Mörkinni. Niðurstaðan varð sú að Skógrækt ríkisins var skrifað bréf í maímánuði 1975 og óskað eftir aðstöðu fyrir félagið í Goðalandi. Endanlegar lyktir þeirrar málaleitunar voru að félagið fékk úthlutað svæði í Básum á Goðalandi.

Sumarið 1980 hófust byggingarframkvæmdir við skála í Básum og unnu Útivistarfélagar að byggingunni í sjálfboðavinnu. Í ágúst 1983 var síðan skálinn vígður. Auk skálans hafði þá verið byggt salernishús og leitt vatn á svæðið. Síðan var annar og minni skáli byggður á svæðinu og var hann tilbúinn til notkunar á 10 ára afmæli félagsins.

Allt frá því Útivist kom upp aðstöðu í Básum hefur hjarta félagsins slegið þar. Síðar kom félagið sér upp fleiri skálum eða gekk til samstarfs við heimamenn um nýtingu skála sem þegar voru til staðar. Skálarnir eru nú orðnir sjö talsins; í Básum, á Fimmvörðuhálsi, við Sveinstind, í Skælingum, við Álftavötn, Strútsskáli og Dalakofinn.

Frá upphafi hefur Útivist boðið upp á fjölda ferða á hverju ári og eykst úrvalið og fjölbreytnin ár frá ári. Þó eru alltaf nokkrir fastir punktar í starfsemi félagsins, til dæmis afmælisferðin á Keili sem áður var nefnd, Jónsmessunæturganga yfir Fimmvörðuháls og kirkjuferð í upphafi árs. Fjöldi fólks leggur hönd á plóg í sjálfboðavinnu, bæði við nefnda- og stjórnarstörf, vinnuferðir í skála og hvaðeina sem gera þarf. Fjöldi fararstjóra leiðir ferðir félagsins og tveir starfsmenn starfa á skrifstofu félagsins.

Ítarlegri frásögn af starfsemi félagsins fyrstu tíu starfsárin má lesa í grein Sigurgeirs Þorgilssonar Útivist 10 ára • Mynda-
  kvöld

  Myndakvöld

  Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.

  Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.

  Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.

  Öll herlegheitin kosta aðeins 1.500 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.

  Næstu ferðir

 • Jeppa-
  ferðir

  Jeppaferðir

  Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum. 

  Næstu ferðir

  3. mars 2018 - 4. mars 2018

  Fimmvörðuháls

  24. mars 2018 - 25. mars 2018

  Fjallabak nyrðra – Mælifellssandur

  7. apríl 2018 - 8. apríl 2018

  Fjallabak syðra

 • Fjalla-
  refir

  Fjallarefir

  Á námskeiðum Fjallarefa er gönguþrek markvisst byggt upp og þátttakendur kynnast fjölbreyttum gönguleiðum.

  Námskeið Fjallarefa er ætlað þeim sem áður hafa tekið þátt í námskeiðum og/eða eru í ágætis gönguformi. Námskeiðið felur í sér þrekgöngutíma, dagsferðir og helgarferð. Samhliða göngunum verður fræðsla þar sem þátttakendur safna í sarpinn hagnýtum upplýsingum sem tengjast útivist, til dæmis varðandi klæðnað, næringu, útbúnað og leiðarval. 

  Þrekgöngutímar eru á þriðjudögum og dagsferðir á laugardögum. Þátttakendur koma á eigin bílum á upphafsstað göngu en geta sameinast í bíla eftir hentugleikum.

  Hámarksfjöldi: 40 manns.

  Næstu ferðir

 • Everest

  Everest 2018

  Everest-hópur Útivistar er ætlaður fólki sem er í þokkalega góðu formi og vill reyna á sig í hressilegum fjallgöngum. Boðið verður upp á þríþætta dagskrá, sjá hér fyrir neðan:

  Kvöldgöngur á miðvikudögum kl.18 (1 ½ - 2 klst)
  10. janúar - 21. mars => 11 göngur
  5. september - 21. nóvember => 12 göngur

  Dagsgöngur – 2. laugardag í mánuði
  20. janúar – Akrafjall
  10. febrúar – Grindarskörð-Kistufell
  10. mars – Hrafnabjörg
  14. apríl – Skarðsheiði endilöng
  9. júní – Eiríksjökull
  8. september – sjö tindar Hafnarfjalls
  13. október – kringum Botnssúlur
  10. nóvember – Hengilssvæðið
  8. desember – jólaóvissuferð

  Helgarferðir
  10.-13. maí - Rótarfjallshnjúkur og Svínafellsfjall
  10.-12. ágúst – Ólafsfjörður-Hvanndalir-Héðinsfjörður

  Kvöldgöngurnar (23 talsins) eru innifaldar í skráningargjaldi sem er aðeins 30.000 kr. Verð í dagsgöngur er 4.900 kr. og í helgarferðir 9.800 kr.
  Fararstjórar eru Stefán Birgisson, Unnur Jónsdóttir, Reynir Þór Sigurðsson, Gylfi Arnbjörnsson og Kristjana Birgisdóttir. Á kantinum er svo Kristíana Baldursdóttir.

  Skráning á skrifstofu Útivistar, í síma 562 1000 eða með tölvupósti á utivist@utivist.is.

  Fyrstur kemur, fyrstur fær - fjöldinn verður takmarkaður

  Lokaður hópur – aðeins fyrir þá sem greiða skráningargjaldið

  Næstu ferðir

  10. mars 2018

  Hrafnabjörg

  10. maí 2018 - 13. maí 2018

  Rótarfjallshnjúkur og Svínafellsfjall

 • Útivistar-
  gírinn

  Útivistargírinn

  Ókeypis göngur í nágrenni höfuðborgarinnar

  Komdu þér í Útivistargírinn fyrir sumarið með samheldnum hópi Útivistarfólks og nýrri tólf vikna dagskrá. Útivistargírinn leysir af hólmi Útivistarræktina sem starfrækt hefur verið í um 20 ár.

  Dagskráin hefst 4. apríl og stendur til 20. júní. Hópurinn hittist vikulega á miðvikudögum klukkan 18:00 og gengur spennandi gönguleiðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti og eru nýliðar í útivist . Einnig er vant fólk hvatt til þess að taka þátt. Í þessum kvöldgöngum verður lögð áhersla á vinalegt andrúmsloft og kynningu á grunnatriðum í útivist og gönguferðum. Fjölbreytt starfsemi Útivistar, þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, verður einnig kynnt þátttakendum.

  Flestar göngurnar taka 2 – 4 klukkustundir. Þátttakendur sameinast í bíla og deila eldsneytiskostnaði.

  Kynningarfundur verður haldinn kl. 20:00 þann 28. mars.

  Þátttaka í göngunum er félagsmönnum Útivistar að kostnaðarlausu en skrá þarf þátttöku. Áhugasömum er bent á upplýsingar um skráningu á heimasíðu Útivistar. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og tekur röð þeirra mið af veðri og færð hverju sinni. Auglýst verður á vef Útivistar, á Facebook síðu félagsins og á póstlista hvert verður farið hverju sinni.

  Fjórir fararstjórar, Hrönn Baldursdóttir, Guðrún Svava Viðarsdóttir, Kristjana Kristjánsdóttir og Guðmundur Örn Sverrisson leiða þátttakendur Útivistargírsins. Óhætt er að segja að fararstjórahópurinn sé fjölbreyttur en samhentur og hlakkar til að taka vel á móti öllum þeim sem vilja komast í Útivistargírinn.

  Fylgstu með og skráðu þig á Facebook síðu Útivistargírsins.