Lög Útivistar

Lög Útivistar

 

1.gr.

Félagið nefnist Útivist og tilsvarandi á erlendum málum: Outdoor Life, Friluftsliv os.frv. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

2.gr.

Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.

 

3.gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:

a)      hvetja fólk til ferðalaga og hollrar útivistar.

b)      standa að öflugri upplýsingagjöf til félagsmanna og annarra um ferðir og ferðamöguleika á Íslandi

c)      stuðla að skipulögðum ferðum á vegum félagsins um Ísland.

d)     vinna að góðu samstarfi við aðra aðila sem sinna skyldum verkefnum á svipuðum grunni, utanlands og innan.

e)      koma upp gistiskálum á Íslandi og auðvelda þannig ferðir og útivist.

f)       láta til sín taka um þau mál sem snerta ferðalög og útivist,eftir því sem stjórn félagsins og félagskjarni (sbr.4.gr.) sjá ástæðu til hverju sinni.

4.gr.    

Félagskjarni Útivistar hefur það hlutverk að standa vörð um stefnu og stjórnun félagsins. Félagskjarni er að lágmarki skipaður þrjátíu og sex félagsmönnum og er þannig kjörinn:

a)      Fráfarandi stjórnarmenn hverju sinni, aðal- og varamenn, eru sjálfkjörnir í félagskjarnann.

b)      Aðalfundur kýs árlega18 menn í félagskjarnann til tveggja ára.

c)      Heiðursfélagar sitja í félagskjarna og skipa þar sérstakt heiðursráð með fullum réttindum.

d)     Nefndarmenn nefnda sem kosnar eru á aðalfundi eiga seturétt í félagskjarnanum með fullum réttindum.

 

5.gr.    

Félagskjarni Útivistar starfar með eftirfarandi hætti:

a)      Kjarnafund skal halda eigi síðar en tveim vikum eftir aðalfund. Þar kýs kjarni úr sínum hópi fjóra aðalmenn og þrjá varamenn í stjórn félagsins til tveggja ára, þannig að annað árið eru kosnir tveir aðalmenn og tveir varamenn, hitt árið tveir aðalmenn og einn varamaður.

b)      Halda skal minnst þrjá kjarnafundi milli aðalfunda. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður á kjarnafundum, enda hafi allir verið boðaðir og minnst helmingur mættur.

 

6. gr.

Stjórn félagsins.

a)      Formaður félagsins er kosinn sérstaklega á aðalfundi til tveggja ára í senn sbr. grein 8.

b)      Aðal- og varamenn í stjórn taka að fullu þátt í starfi stjórnar.

c)      Á fyrsta stjórnarfundi nýkjörinnar stjórnar skulu stjórnarmenn skipta með sér verkum í embætti varaformanns, ritara og gjaldkera. Einnig skiptir hún með sér öðrum verkum eftir því sem þykir henta.

d)     Stjórn skipar tengilið fyrir fastanefndir sem sér um samskipti og upplýsingafjöf milli stjórnar og viðkomandi nefndar.

e)      Stjórn félagsins sér um daglegan rekstur félagsins og ræður til þess starfsfólk eins og þurfa þykir.Formaður og stjórn eru ábyrg gagnvart kjarna og aðalfundi.

 

7. gr.

Nefndir félagsins.

a)      Í félaginu eru fastanefndir ýmisst kosnar á aðalfundi eða tilnefndar af stjórn og kjarna.

b)      Innan félagsins starfa eftirfarandi fastanefndir sem kosnar eru á aðalfundi;

 • Langferðanefnd
 • Dagsferðanefnd
 • Jeppanefnd
 • Laganefnd
 • Myndanefnd
 • Kaffinefnd

Kjörnir fulltrúar í nefndum skulu vera fimm í hverri nefnd, öðrum en kaffinefnd, sem skipuð er 15 fulltrúum. Nefndarmenn skulu kosnir til tveggjaára í senn, þannigað 2skulu kosnirannaðárið en 3 hitt. Undantekning er Kaffinefnd þar sem 7 skulu kosnir annað árið en 8 hitt.

Nefndir félagsins skulu tilnefna oddamann úr sínum röðum.

c)      Stjórn og kjarni tilnefna í eftirfarandi nefndir:

 • Skálanefndir fyrir alla skála félagsins
 • Fræðslunefnd

d)      Innan félagsins skulu starfa að öðru leiti þær nefndir sem aðalfundur, kjarni eða stjórn telja þörf á.

e)      Nefndir félagsins bera ábyrgð gagnvart stjórn Útivistar sem setur þeim starfsreglur, þar sem hlutverk þeirra og ábyrgð eru skilgreind.

f)       Allar stjórnskipaðar nefndir skulu velja sér talsmann sem hefur setu- og umræðurétt á kjarnafundum án atkvæðisréttar.

 

 

8.gr.    

Aðalfundur.

a)      Aðalfundur er æðsta vald í málefnum félagsins.

b)      Aðalfund skal halda í mars ár hvert. Aðalfund skal boða með dagskrá með minnst tveggja vikna fyrirvara í fréttabréfi félagsins og auglýsingu í fjölmiðlum. Á dagskrá aðalfundar skal vera: 

 1. Skýrsla stjórnar
 2. Reikningar lagðir fram til afgreiðslu
 3. Kosning í nefndir og embætti
 4. Kosning í kjarna
 5. Kosning formanns
 6. Lagabreytingar
 7. Önnur mál

 

c)       Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað.

d)      Atkvæðisrétt og kjörgengi öðlast félagsmenn þegar tveir mánuður eru liðnir frá inngöngu í félagið. Annars eiga allir skuldlausir félagar atkvæðisrétt og kjörgengi ásamt heiðursfélögum.

e)       Á aðalfundi skal stjórn gefa skýrslu um starfsemi liðins árs og leggja fram (endur)skoðaða reikninga. Reikningar skulu liggja frammi á skrifstofu í minnst tvær vikur fyrir aðalfund. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

f)        Aðalfundur kýs formann til tveggja ára í senn.

g)       Aðalfundur skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara. Reikningnum skal auk þess stillt upp af viðurkenndri bóhaldsstofu.

h)       Á aðalfundi skal kjósa í kjarna og fastanefndir til tveggja ára í senn, 18 kjarnafulltrúa og helming nefndarmanna hverju sinni.

i)        Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi.Skriflegum tillögum um lagabreytingar skal skilað til stjórnar fyrir febrúarlok.

j)        Séu lagabreytingar á dagskrá skal þess sérstaklega getið í fundarboði og skulu tillögurnar liggja frammi á skrifstofu félagsins í tvær vikur fyrir aðalfund.

k)       Til lagabreytinga þarf atkvæði 2/3 hluta fundarmanna enda hafi ekki færri en 60 atkvæðisbærir félagar mætt á fundinn.

  

9.gr.    

Félagsaðild.

a)      Félagsmenn í Útivist geta allir orðið.

b)      Árgjald er ákveðið af kjarnanum hverju sinni.

c)      Kjarni gerir tillögur um heiðursfélaga hverju sinni. Heiðursfélagar eru undanþegnir félagsgjaldi.

d)     Maki félagsmanns er aukafélagi og nýtur sömu hlunninda og félagsmaður að undanskildum kosningarétti og kjörgengi á aðalfundi. Aukafélagi getur fengið full réttindi sem félagsmaður með greiðslu 50% félagsgjalds.

 

10.gr.  

Slit félagsins.

a)      Félaginu verði ekki slitið nema allur kjarninn sé því samþykkur, enda hafi aðalfundur samþykkt það áður og þess verið getið í fundarboði. Jafnframt verði tekið ákvörðun um hvernig eignum félagsins skuli ráðstafað,enda renni þær til hliðstæðs félags eða stofnunar á sama svæði.

 

11.gr.  

Takmörkun á lagabreytingum.

a)      Ákvæðum annarrar greinar um tilgang félagsins og tíundu greinar um félagsslit má ekki breyta.

 
 • Mynda-
  kvöld

  Myndakvöld

  Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.

  Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.

  Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.

  Öll herlegheitin kosta aðeins 1.500 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.

  Næstu ferðir

 • Jeppa-
  ferðir

  Jeppaferðir

  Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum. 

  Næstu ferðir

  3. mars 2018 - 4. mars 2018

  Fimmvörðuháls

  24. mars 2018 - 25. mars 2018

  Fjallabak nyrðra – Mælifellssandur

  7. apríl 2018 - 8. apríl 2018

  Fjallabak syðra

 • Fjalla-
  refir

  Fjallarefir

  Á námskeiðum Fjallarefa er gönguþrek markvisst byggt upp og þátttakendur kynnast fjölbreyttum gönguleiðum.

  Námskeið Fjallarefa er ætlað þeim sem áður hafa tekið þátt í námskeiðum og/eða eru í ágætis gönguformi. Námskeiðið felur í sér þrekgöngutíma, dagsferðir og helgarferð. Samhliða göngunum verður fræðsla þar sem þátttakendur safna í sarpinn hagnýtum upplýsingum sem tengjast útivist, til dæmis varðandi klæðnað, næringu, útbúnað og leiðarval. 

  Þrekgöngutímar eru á þriðjudögum og dagsferðir á laugardögum. Þátttakendur koma á eigin bílum á upphafsstað göngu en geta sameinast í bíla eftir hentugleikum.

  Hámarksfjöldi: 40 manns.

  Næstu ferðir

 • Everest

  Everest 2018

  Everest-hópur Útivistar er ætlaður fólki sem er í þokkalega góðu formi og vill reyna á sig í hressilegum fjallgöngum. Boðið verður upp á þríþætta dagskrá, sjá hér fyrir neðan:

  Kvöldgöngur á miðvikudögum kl.18 (1 ½ - 2 klst)
  10. janúar - 21. mars => 11 göngur
  5. september - 21. nóvember => 12 göngur

  Dagsgöngur – 2. laugardag í mánuði
  20. janúar – Akrafjall
  10. febrúar – Grindarskörð-Kistufell
  10. mars – Hrafnabjörg
  14. apríl – Skarðsheiði endilöng
  9. júní – Eiríksjökull
  8. september – sjö tindar Hafnarfjalls
  13. október – kringum Botnssúlur
  10. nóvember – Hengilssvæðið
  8. desember – jólaóvissuferð

  Helgarferðir
  10.-13. maí - Rótarfjallshnjúkur og Svínafellsfjall
  10.-12. ágúst – Ólafsfjörður-Hvanndalir-Héðinsfjörður

  Kvöldgöngurnar (23 talsins) eru innifaldar í skráningargjaldi sem er aðeins 30.000 kr. Verð í dagsgöngur er 4.900 kr. og í helgarferðir 9.800 kr.
  Fararstjórar eru Stefán Birgisson, Unnur Jónsdóttir, Reynir Þór Sigurðsson, Gylfi Arnbjörnsson og Kristjana Birgisdóttir. Á kantinum er svo Kristíana Baldursdóttir.

  Skráning á skrifstofu Útivistar, í síma 562 1000 eða með tölvupósti á utivist@utivist.is.

  Fyrstur kemur, fyrstur fær - fjöldinn verður takmarkaður

  Lokaður hópur – aðeins fyrir þá sem greiða skráningargjaldið

  Næstu ferðir

  10. mars 2018

  Hrafnabjörg

  10. maí 2018 - 13. maí 2018

  Rótarfjallshnjúkur og Svínafellsfjall

 • Útivistar-
  gírinn

  Útivistargírinn

  Ókeypis göngur í nágrenni höfuðborgarinnar

  Komdu þér í Útivistargírinn fyrir sumarið með samheldnum hópi Útivistarfólks og nýrri tólf vikna dagskrá. Útivistargírinn leysir af hólmi Útivistarræktina sem starfrækt hefur verið í um 20 ár.

  Dagskráin hefst 4. apríl og stendur til 20. júní. Hópurinn hittist vikulega á miðvikudögum klukkan 18:00 og gengur spennandi gönguleiðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti og eru nýliðar í útivist . Einnig er vant fólk hvatt til þess að taka þátt. Í þessum kvöldgöngum verður lögð áhersla á vinalegt andrúmsloft og kynningu á grunnatriðum í útivist og gönguferðum. Fjölbreytt starfsemi Útivistar, þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, verður einnig kynnt þátttakendum.

  Flestar göngurnar taka 2 – 4 klukkustundir. Þátttakendur sameinast í bíla og deila eldsneytiskostnaði.

  Kynningarfundur verður haldinn kl. 20:00 þann 28. mars.

  Þátttaka í göngunum er félagsmönnum Útivistar að kostnaðarlausu en skrá þarf þátttöku. Áhugasömum er bent á upplýsingar um skráningu á heimasíðu Útivistar. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og tekur röð þeirra mið af veðri og færð hverju sinni. Auglýst verður á vef Útivistar, á Facebook síðu félagsins og á póstlista hvert verður farið hverju sinni.

  Fjórir fararstjórar, Hrönn Baldursdóttir, Guðrún Svava Viðarsdóttir, Kristjana Kristjánsdóttir og Guðmundur Örn Sverrisson leiða þátttakendur Útivistargírsins. Óhætt er að segja að fararstjórahópurinn sé fjölbreyttur en samhentur og hlakkar til að taka vel á móti öllum þeim sem vilja komast í Útivistargírinn.

  Fylgstu með og skráðu þig á Facebook síðu Útivistargírsins.