Langleiðin 2021

Langleiðin heldur áfram en hún hófst í fyrra hjá Fonti á Langanesi. Þetta er í þriðja sinn sem þessi raðganga er í boði hjá Útivist en fyrri göngum er nú gengið úr norð-austri til suð-vesturs. Nú í ár liggur leiðin um hálendið norðan Vatnajökuls. Yfir þurrasta og óbyggilegasta hluta landsins sem jafnframt er sá stórbrotnasti og mest framandi.

Talsverður hluti leiðarinnar í ár liggur eftir fjallvegum en einnig eftir merktum gönguslóðum. Á stöku svæðum verður gengið utan alfaraleiða þar sem engir slóðar eru merktir. Gist er í skálum í nokkur skipti en annars í tjöldum. Trússbíll fylgir hópnum eins og áður og verður núna vatnstunna meðferðis þar sem gengið er um vatnslaus svæði. Í sumar verður oftast gengið með dagpoka en einu sinni þarf að gera ráð fyrir að bera allt til einnar nætur á bakinu.
Líkt og í fyrri Langleiðum er vegalengd þessa árs skipt í tvennt og gengið í tveimur áföngum. Fyrri leggurinn samanstendur af fimm göngudögum í júlí og hefst við Grímsstaði á Fjöllum en endar í Drekagili hjá Öskju. Seinni leggurinn verður genginn á sex göngudögum í ágúst frá Dreka og endar í Nýjadal.
Gangan í júlí verður um 110 km og liggur frá Grímsstöðum að brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum á þjóðvegi nr. 1 þar sem farið verður yfir ána. Þaðan verður gengið í suðurátt með Jökulánni og fjallvegi F88 fylgt að mestu að Herðubreiðarlindum. Þaðan liggur leiðin að Bræðrafelli og síðan að Öskju og í Drekagil. Fyrstu tvær næturnar á þeirri göngu verður gist í tjöldum en í skálum við Herðubreiðarlindir, Bræðrafell og í Dreka.
Gangan í ágúst er um 130-140 km og hefst við Dreka. Leiðin liggur um Öskju, Þorvaldshraun og inn á Gæsavatnaleið. Gengið verður um Urðarháls, Dyngjuháls og í Gæsavötn þar sem gist verður í skála. Þaðan er gengið um Vonarskarð í Nýjadal og er það lokaáfangi ársins.
Öll ganga utan merktra slóða er í samráði við landverði Vatnajökulsþjóðgarðs.

16. – 20. júlí: Grímsstaðir á Fjöllum – Dreki við Öskju 114 km.

16. júlí Grímsstaðir – Ferjuás, tjald 25 km.
17. júlí Ferjuás – Grafarlandaá, tjald 25 km.
18. júlí Grafarlandaá – Herðubreiðarlindir, skáli 20 km
19. júlí Herðubreiðarlindir – Bræðrafell, skáli 22 km.
20. júlí Bræðrafell – Dreki, skáli 22 km.

6. – 11. ágúst: Dreki – Nýidalur 130-140 km.

6. ágúst Dreki – Askja – Þorvaldshraun, tjald 26 km.
7. ágúst Þorvaldshraun – Flæður, tjald 20 km.
8. ágúst Flæður – Urðarháls - Dyngjuháls, tjald 20 km.
9. ágúst Dyngjuháls – Gæsavötn, skáli 16 km.
10. ágúst Gæsavötn – Vonarskarð, tjald 25 km.
11. ágúst Vonarskarð – Nýidalur, skáli 25 km.