Laugavegurinn - 5 dagar

Gönguleiðin á milli Landmannalauga og Þórsmerkur (Bása) kallast Laugavegur. Útivist býður á hverju sumri upp á nokkrar ferðir um svæðið og er oftast um að ræða trússferðir sem taka 5 daga og er ýmist gist í skálum eða tjöldum á leiðinni. Í ferðinni gefst ferðafólki kostur á að kynnast ótrúlega fjölbreyttu og fögru landslagi.  Má þar nefna heitar laugar, hveri og jökla. Litadýrð og fegurð landslagsins er slík að ekki verður lýst með orðum.  

Trúss   
Ferðirnar eru trússferðir. Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera bakpoka með nesti og hlífðarfötum. Þótt ferðirnar séu trússferðir er gott að hafa í huga að trússbíllinn er ekki mjög stór. Því skal takmarka umfang þess farangurs sem tekinn er með. Ágætt er að taka ekki meira með en í hefðbundinni ferð þar sem gengið er með allan farangur. Ganga verður þannig frá öllum farangri að hann blotni ekki þó rigni á hann.


1. dagur   
Brottför kl. 08:00 að morgni frá BSÍ við Vatnsmýrarveg og ekið í Landmannalaugar. Þar fær fólk sér að borða og tekur vatn fyrir daginn áður en haldið er áfram í Hrafntinnusker. Fyrst er gengið um Laugahraun að Brennisteinsöldu og inn að Stórahver og síðan áfram að Hrafntinnuskeri. Vegalengd er 12 km og áætlaður göngutími 4-5 klst. Eftir að ferðalangar hafa komið sér fyrir og fengið sér hressingu í Höskuldsskála á Hrafntinnuskeri er tilvalið að fara í kvöldgöngu til að skoða nágrennið.  T.d. er hægt að ganga á Söðul sem er fjall rétt við skálann en í góðu veðri er þar mikið útsýni. Einnig er stundum gengið að íshellunum í Hrafntinnuskeri. 

2. dagur   
Nú liggur leiðin niður á við og farið með Reykjafjöllum og Kaldaklofsfjöllum og síðan fram á brúnir Jökultungna. Ef veður er gott er kjörið að taka á sig krók og ganga á Háskerðing í Kaldaklofsfjöllum, hæsta fjall á þessum slóðum, 1281 m y.s. en þaðan er afbragðs útsýni. Vaða þarf Grashagakvísl ásamt Bröttukvísl. Líklegt er að göngufólk verði fegið að geta teygt úr sér þegar komið er að Hvanngili þar sem er gist. Vegalengd er u.þ.b. 16 km og áætlaður göngutími 6-8 klst. 

3. dagur   
Frá Hvanngili er haldið í suðurátt og farið yfir Kaldaklofskvísl á göngubrú og skömmu síðar þarf að vaða Bláfjallakvísl. Um 4 km síðar er farið yfir Nyrðri–Emstruá á brú og haldið áfram um slétta sanda niður að skála og tjaldstæði í Botnum. Áætlaður göngutími er 6-7 klst. og vegalengd 16 km. 

4. dagur   
Gengið niður að Syðri-Emstruá sem rennur undan Entujökli, farið yfir hana á göngubrú og er þá komið á Almenninga og stefna tekin í Bása. Litið er á hrikalegt gljúfur þar sem mætast Syðri-Emstruá og Markarfljót áður en haldið er suður Almenninga. Þar liggur leiðin m.a. um Slyppugil, Bjórgil og yfir Ljósá á lítilli göngubrú. Gengið er upp og yfir Kápu og niður að Þröngá og hana þarf að vaða. Eftir það er gengið er inn að skálunum góðu í Básum. Vegalengd um 15 km og áætlaður göngutími 5-7 klst. Ferðin endar á laugardagskvöldi með grillveislu í paradísinni Básum þar sem er gist síðustu nóttina í skálum Útivistar eða í tjöldum.

Í Básum er góð aðstaða. Þar er hægt að gista í tjaldi eða í skála.  Hægt er að komast í sturtu. Ætti göngufólk því að geta átt ánægulega kvöldstund að lokinni langri göngu í veðursælli gróðurvin á Goðalandi.
Básar á Goðalandi
Veðrið í Básum

5. dagur   
Á síðasta degi er kjörið að fara í gönguferð áður en haldið er heimleiðis, en möguleikarnir eru óþrjótandi t.d. Réttarfell, Útigönguhöfði, Básahringurinn og Strákagil svo eitthvað sé nefnt.     

Oft er raunin sú að þeir sem fara í skipulagðar ferðir eins og þær sem Útivist býður upp á hafa ekki mikla reynslu af ferðamennsku.  Þegar farið er í langar gönguferðir eins og um Laugaveginn eru mörg lítil atriði sem geta breytt afar ánægjulegri ferð í erfitt og leiðinlegt ark á milli tveggja staða. Til að búa ferðafólk sem best undir ferðina er haldinn fundur þar sem fararstjóri hittir alla þá er hafa áhuga á að fara í ferðina.  Á þessum fundi segir fararstjóri frá ferðatilhögun og nauðsynlegum útbúnaði til ferðarinnar og öðru sem þátttakendur hafa áhuga á að fá upplýsingar um.

Undirbúningsfundirnir eru haldnir fyrir hverja ferð.   
 • Mynda-
  kvöld

  Myndakvöld

  Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.

  Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.

  Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.

  Öll herlegheitin kosta aðeins 1.500 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.

  Næstu ferðir

 • Jeppa-
  ferðir

  Jeppaferðir

  Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum. 

  Næstu ferðir

  3. mars 2018 - 4. mars 2018

  Fimmvörðuháls

  24. mars 2018 - 25. mars 2018

  Fjallabak nyrðra – Mælifellssandur

  7. apríl 2018 - 8. apríl 2018

  Fjallabak syðra

 • Fjalla-
  refir

  Fjallarefir

  Á námskeiðum Fjallarefa er gönguþrek markvisst byggt upp og þátttakendur kynnast fjölbreyttum gönguleiðum.

  Námskeið Fjallarefa er ætlað þeim sem áður hafa tekið þátt í námskeiðum og/eða eru í ágætis gönguformi. Námskeiðið felur í sér þrekgöngutíma, dagsferðir og helgarferð. Samhliða göngunum verður fræðsla þar sem þátttakendur safna í sarpinn hagnýtum upplýsingum sem tengjast útivist, til dæmis varðandi klæðnað, næringu, útbúnað og leiðarval. 

  Þrekgöngutímar eru á þriðjudögum og dagsferðir á laugardögum. Þátttakendur koma á eigin bílum á upphafsstað göngu en geta sameinast í bíla eftir hentugleikum.

  Hámarksfjöldi: 40 manns.

  Næstu ferðir

 • Everest

  Everest 2018

  Everest-hópur Útivistar er ætlaður fólki sem er í þokkalega góðu formi og vill reyna á sig í hressilegum fjallgöngum. Boðið verður upp á þríþætta dagskrá, sjá hér fyrir neðan:

  Kvöldgöngur á miðvikudögum kl.18 (1 ½ - 2 klst)
  10. janúar - 21. mars => 11 göngur
  5. september - 21. nóvember => 12 göngur

  Dagsgöngur – 2. laugardag í mánuði
  20. janúar – Akrafjall
  10. febrúar – Grindarskörð-Kistufell
  10. mars – Hrafnabjörg
  14. apríl – Skarðsheiði endilöng
  9. júní – Eiríksjökull
  8. september – sjö tindar Hafnarfjalls
  13. október – kringum Botnssúlur
  10. nóvember – Hengilssvæðið
  8. desember – jólaóvissuferð

  Helgarferðir
  10.-13. maí - Rótarfjallshnjúkur og Svínafellsfjall
  10.-12. ágúst – Ólafsfjörður-Hvanndalir-Héðinsfjörður

  Kvöldgöngurnar (23 talsins) eru innifaldar í skráningargjaldi sem er aðeins 30.000 kr. Verð í dagsgöngur er 4.900 kr. og í helgarferðir 9.800 kr.
  Fararstjórar eru Stefán Birgisson, Unnur Jónsdóttir, Reynir Þór Sigurðsson, Gylfi Arnbjörnsson og Kristjana Birgisdóttir. Á kantinum er svo Kristíana Baldursdóttir.

  Skráning á skrifstofu Útivistar, í síma 562 1000 eða með tölvupósti á utivist@utivist.is.

  Fyrstur kemur, fyrstur fær - fjöldinn verður takmarkaður

  Lokaður hópur – aðeins fyrir þá sem greiða skráningargjaldið

  Næstu ferðir

  10. mars 2018

  Hrafnabjörg

  10. maí 2018 - 13. maí 2018

  Rótarfjallshnjúkur og Svínafellsfjall

 • Útivistar-
  gírinn

  Útivistargírinn

  Ókeypis göngur í nágrenni höfuðborgarinnar

  Komdu þér í Útivistargírinn fyrir sumarið með samheldnum hópi Útivistarfólks og nýrri tólf vikna dagskrá. Útivistargírinn leysir af hólmi Útivistarræktina sem starfrækt hefur verið í um 20 ár.

  Dagskráin hefst 4. apríl og stendur til 20. júní. Hópurinn hittist vikulega á miðvikudögum klukkan 18:00 og gengur spennandi gönguleiðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti og eru nýliðar í útivist . Einnig er vant fólk hvatt til þess að taka þátt. Í þessum kvöldgöngum verður lögð áhersla á vinalegt andrúmsloft og kynningu á grunnatriðum í útivist og gönguferðum. Fjölbreytt starfsemi Útivistar, þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, verður einnig kynnt þátttakendum.

  Flestar göngurnar taka 2 – 4 klukkustundir. Þátttakendur sameinast í bíla og deila eldsneytiskostnaði.

  Kynningarfundur verður haldinn kl. 20:00 þann 28. mars.

  Þátttaka í göngunum er félagsmönnum Útivistar að kostnaðarlausu en skrá þarf þátttöku. Áhugasömum er bent á upplýsingar um skráningu á heimasíðu Útivistar. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og tekur röð þeirra mið af veðri og færð hverju sinni. Auglýst verður á vef Útivistar, á Facebook síðu félagsins og á póstlista hvert verður farið hverju sinni.

  Fjórir fararstjórar, Hrönn Baldursdóttir, Guðrún Svava Viðarsdóttir, Kristjana Kristjánsdóttir og Guðmundur Örn Sverrisson leiða þátttakendur Útivistargírsins. Óhætt er að segja að fararstjórahópurinn sé fjölbreyttur en samhentur og hlakkar til að taka vel á móti öllum þeim sem vilja komast í Útivistargírinn.

  Fylgstu með og skráðu þig á Facebook síðu Útivistargírsins.