Jarðfræðiferðir

18. janúar 2020

Stundum er sagt að Ísland sé eins og stór tilraunastofa í jarðfræði og víst er að náttúra landsins er áhugaverð fyrir jarðfræðinga og áhugafólk um jarðfræði. Víða má sjá með berum augum hvernig náttúruöflin móta landslagið.

Gosbeltið liggur þvert í gegnum landið og mótar það   ásamt jöklum, jökulfljótum og öðrum náttúruöflum.

Fyrir leikmenn eykur það innsýn og skilning á landmótuninni ef ferðast er undir leiðsögn sérfræðinga á þessu sviði. Tækifæri til þess er að fara í jarðfræðiferðir með Útivist. Í ár eru fjórar slíkar ferðir á dagskrá.

Þann 25. apríl verður á dagskrá jarðfræðiferð um Reykjanes. Ásta Þorleifsdóttir jarðfræðingur og Útivistarfélagi til margra ára leiðir þessa ferð og fræðir þátttakendur um það sem fyrir augu ber. 

Um mánuði síðar verður Ásta aftur á ferðinni með jarðfræðiferð um Vesturland, en sú ferð er á dagskrá þann 23. maí.

Helgina 17.-19. júlí verður á dagskrá ferð þar sem gengið verður inn að Morsárjökli. Í þeirri ferð mun Þorsteinn Sæmundsson fræða göngumenn um þá landmótun sem þar er í gangi. Aftur verður Þorsteinn á ferð með okkur helgina 14.-16 ágúst, en að þessu sinni verður farið í Bása á Goðalandi og gengið inn að Tungnakvíslarjökli. Eins og fram hefur komið í fréttum eru athyglisverðar breytingar að eiga sér stað á þeim slóðum sem gaman er að skoða og velta fyrir sér.