Ferðaáætlun Útivistar árið 2013

14. desember 2012

Ferðaáætlun Útivistar fyrir árið 2013 var dreift með Fréttatímanum föstudaginn 14. desember 2012.  Hana má einnig nálgast á skrifstofu Útivistar að Laugavegi 178.  Hún er að sjálfsögðu einnig til á tölvutæku formi, bæði sem pdf-skjal og sem vefrit sem hægt er að fletta í gegnum.

Ferðaáætlunin er fjölbreytt að vanda og allmargar nýjungar eru nú í boði fyrir útivistarfólk. Margir muna eftir Langleiðinni, frá Reykjanestá að Fonti á Langanesi, sem var á dagskrá Útivistar á árunum 2008-2010. Þeir sem misstu af henni, eða einhverjum áföngum hennar, geta glaðst því nú hefjum við leikinn aftur. Í ár verður gengið frá Reykjanestá í Nýjadal. 

Fjölmargar dagsgöngur verða í boði á árinu. Þar á meðal er ný ganga þar sem Útivist og Íslensku Alparnir taka höndum saman og standa fyrir um það bil sólarhringslangri göngu á fjöll sem við höfum kosið að nefna Útivistar-Alpana. Allt um þá göngu og aðrar dagsferðir hér á vefnum. 

Helgarferðir eru að miklu leyti með svipuðu sniði og undanfarin ár. Þar ber að vanda hæst Jónsmessugönguna yfir Fimmvörðuháls. Margir mæta í gönguna ár eftir ár og jafnvel hlakka til hennar mánuðum saman. 

Lengri ferðir eru að vanda margar og nú færum við okkur meira út um allt land heldur en oft áður. Ákveðið þema kemur við sögu bæði í lengri ferðum og dagsferðum, þema sem við köllum "Hverfandi jökla". Tvær af lengri ferðunum eru í þeim flokki og þrjár dagsferðir. 

Jeppadeild Útivistar heldur áfram flakki sínu um fjöll og firnindi. Áætlunin í ár spannar allan skalann, allt frá dagsferð í Bása fyrir alla jeppa til margra daga ferðar fyrir mikið breytta jeppa.  

Lokaðir hópar njóta sívaxandi vinsælda og við höfum að sjálfsögðu brugðist við þeirri þörf. Everest-hópurinn byrjar nú sitt þriðja starfsár, en hann er ætlaður fólki í góðu formi sem vill takast á við öflug fjöll. Hápunkturinn í dagskrá hópsins verður Þórsmerkurhringurinn, þá verður gengið á fjöllin hringinn í kringum höfuðból Útivistar, Bása.

Fjallarefir er hópur fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í fjallgöngum og útivist. Þátttakendur fá fræðslu á ýmsum þáttum sem tengjast útivist, í viðbót við fjallgöngurnar. 

Enn eru ótaldar hjólaferðir sem hafa notið mikilla vinsælda, bæði stuttar ferðir innanbæjar, lengri dagsferðir utanbæjar og allt upp í sumarleyfisferðir á hjóli. Útivistarræktin er öflug sem fyrr, gengið er tvisvar í viku árið um kring. Þátttökugjald er ekkert, bara að mæta og ganga og hafa gaman af. 

Eins og sjá má er eitthvað við allra hæfi á dagskrá okkar í ár. Við hlökkum til að sjá ykkur!