Sóló á Suðurpólinn

01. nóvember 2012

Vilborg Arna Gissurardóttir er í dag að leggja í ferðalag sitt þar sem hún ætlar að ganga á skíðum á Suðurpólinn, ein síns liðs.  Ef henni tekst þetta ætlunarverk sitt verður hún fyrsta íslenska konan sem nær þessu metnaðarfulla markmiði.  Hægt er að fylgjast með ferð hennar á vefnum www.lifsspor.is.  Það verður spennandi að fylgjast með ferðum hennar. 

Útivistarfólk getur gert meira en setið heima og fylgst með.  Vilborg Arna stefnir ekki aðeins sóló á Suðurpólinn heldur hefur hún ákveðið að láta gott af sér leiða og ganga í þágu Lífs styrktarfélags sem hefur það markmið að styðja við konur og fjölskyldur þeirra á kvennadeild Landspítalans. Með ferð sinni vill Vilborg auka skilning landsmanna á mikilvægi þess að konur og fjölskyldur þeirra njóti besta aðbúnaðar í heilbrigðiskerfinu. Vilborg hefur leiðangur sinn, sem ber heitið Lífsspor, við anddyri kvennadeildarinnar í dag 2. nóvember.

Við hvetjum alla til að hreyfa sig þessa 50 daga sem Vilborg verður á leiðinni, henni til stuðnings. Hreyfingin má vera hvað sem er: göngutúr, jóga, dans, hlaup, pallatími, hjól, fótbolti o.fl. o.fl. Því fleiri sem hreyfa sig henni til samlætis og sjálfum sér til góðs þeim mun léttari verða þungu sporin. Hægt verður að skrá afraksturs hvers dags á www.facebook.com/groups/383337991743176/  Líf mun svo senda Vilborgu upplýsingar um fjölda þeirra sem skrá hreyfinguna sína, það mun veita henni kraft til að halda áfram á Suðurpólinn. Hugsum til hennar þegar við stígum okkar lífsspor og heitum líka á sporin hennar því það kemur öllum fjölskyldum í landinu til góða.