Kjalvegur hinn forni

Dags:

fim. 1. ágú. 2024 - mán. 5. ágú. 2024

Brottför:

frá Mjódd kl. 08:00

  • Skáli

Dagur 1

Keyrt að Hveravöllum og gist þar fyrstu nóttina. 

Dagur 2

Hveravellir - Þjófadalir

12 km. 4-5 klst.

Frá Hveravöllum er hægt að velja um tvær leiðir í Þjófadali. Annars vegar er hægt að fylgja stikum og vörðum og ganga beint í suður að Strýtum sem er afar fallegur gígur og hæsti punktur Kjalhrauns. Þaðan er svo gengið beint í vestur í Þjófadali. Hin leiðin fylgir vegaslóða að nokkru og liggur í fyrstu í suðvestur þar til komið er suður fyrir Stélbratt og svo suður í Sóleyjardali, stundum nefndir Jökulvellir. Eftir það liggur leiðin næstum beint í suður á Þröskuld austan Þjófadala. Þar sést niður í skálann sem var reistur árið 1939. Allt er svæðið ákaflega vinalegt, vaxið gras- og lynggróðri. Gist í  skála í Þjófadölum. (12 gistirými)

Gengið á Rauðkoll 1075 m. Gist aftur í Þjófadölum

Dagur 3

Þjófadalir - Þverbrekknamúli
14 km. 5-6 klst.

Nú er gengið í suðvestur á milli Þverfells og Þjófafells og út úr Þjófadölum. Síðan er gengið í suðurjaðri Kjalhrauns, á milli fagurlegra hlaðinna varða með Fúlukvísl á hægri hönd. Mikilúðlegt Hrútfellið er sunnan kvíslarinnar en niður hlíðar fjallsins renna litlir skriðjöklar frá hinum ört dvínandi Regnbúðajökli. Á þessum slóðum rennur Fúlakvísl í mjög þröngu gljúfri, sem hún hefur grafið í Kjalhraun.

Lítil göngubrú er á Fúlukvísl á móts við Múlana, þar sem gljúfrið er hvað þrengst. Gengið er yfir brúna og síðan upp á Múlana og suður í skálann sunnan við Þverbrekknamúla. Annar möguleiki er að ganga áfram meðfram Fúlukvísl og suður að annarri göngubrú sem er beint austan skálans.  Gist í skálanum við Þverbrekknamúla, gistirými fyrir 20.

Dagur 4

Þverbrekknamúli - Hvítárnes
15 km. 5-6 klst.

Fyrst er gengið í austur, yfir göngubrúna á Fúlukvísl og síðan í suðvestur meðfram ánni og henni fylgt allt suður fyrir Hrefnubúðir. Gengið er um gróið land og oft á tíðum djúpar hestagötur. Sunnan Baldheiðar koma víða upp kristaltærar lindir. Önnur leið og lengri er að ganga vestan Fúlukvíslar um Innri og Fremri Fróðárdali og jafnvel alla leið suður í Karlsdrátt sem er einstakt gróðursvæði sem kúrir undir Langjökli. Gengið er suður fyrir Hrútfellið og haldið yfir lítið fjallaskarð niður í Fremri Fróðárdal. Mikilvægt er að hafa Fróðá á hægri hönd þegar farið er yfir skarðið, þ.e. undir Rauðafelli. Í Fremri Fróðárdal sprettur lindarvatnið beint út úr hömrunum sem er ógleymanleg sjón.

Þaðan þarf svo að vaða Fúlukvísl í mörgum kvíslum og miklu mýrlendi undan Hrefnubúðum til að komast að skálanum í Hvítárnesi þar sem gist er síðustu nóttina.

Dagur 5

Rúta flytur hópinn til Reykjavíkur.

Verð 95.000 kr.

Nr.

2408L01