Fundargerð aðalfundar 2015

Aðalfundur Útivistar

 

haldinn í Skaftfellingabúð, Laugavegi 178, Reykjavík, 19. mars 2015

 

Formaður félagsins, Þórarinn Eyfjörð, setti fundinn. Fundarmenn samþykktu Gylfa Arnbjörnsson sem fundarstjóra og Önnu Soffíu Óskarsdóttur og Maríu Berglindi Þráinsdóttur sem fundarritara.

 

Fundurinn var boðaður með löglegum hætti og er því löglegur.

Þátttakendur voru 57 talsins.

 

SKÝRSLA STJÓRNAR

Þórarinn Eyfjörð, formaður félagsins, flutti skýrslu stjórnar um mál og verk sem hæst báru á árinu. [FYLGISKJAL].

Myndir úr starfi félagsins birtust á skjá á meðan formaðurinn flutti skýrsluna.

 

Fundarstjóri lagði til að skýrsla gjaldkera yrði flutt strax á eftir skýrslu formannsins og síðan yrði fjallað um báðar skýrslurnar í einu. Það var samþykkt.

 

REIKNINGAR FÉLAGSINS OG SKÝRSLA GJALDKERA

Skúli H. Skúlason kynnti reikninga félagsins og ferðabókhald. [FYLGISKJAL].

 

Engar umræður urðu um skýrslur formanns og gjaldkera og þær ásamt reikningum samþykktar.

 

KOSNINGAR Í NEFNDIR OG KJARNA

Jóhanna Benediktsdóttir kynnti tillögur uppstillinganefndar sem voru samþykktar.

[FYLGISKJAL].

 

(Kaffihlé)

 

ÖNNUR MÁL

Bergþóra Bergsdóttir spurði hvort búið væri að ráða umsjónarmann í Bása. Formaður og framkvæmdastjóri sögðu að auglýst hefði verið eftir umsjónarmanni sem myndi sjá um Bása allt tímabilið og að þrjár umsóknir liggi fyrir. Ekki hefur verið gengið frá ráðningu. Skúli sagði að kominn væri kandidat í starfið en það ætti eftir að gera ráðningarsamning. Þetta er tilraunaverkefni í ákveðinn tíma. Kostar meira og árangurinn verður metinn í lok tímabilsins.

Nýtt fyrirkomulag á að auka yfirsýn og hagsýni varðandi reksturinn. Umsjónarmaður verður ráðinn til áramóta en verður í Básum fram í október og á þá eftir að taka sumarfrí og frí vegna frídaga.

 

Friðbjörn Steinsson spurði um tillögu um skipulag á Goðalandi

Útivist er ætlað nokkuð rúmt svæði í Básum. Fjögur byggingasvæði eru skilgreind undir Bólfelli, sem þjónustu- og verslunarsvæði, hálfur hektari hver lóð með 300 fm byggingarleyfi. Þær eru ekki sérstaklega ætlaðar fyrir Útivist. Útivist gerir alvarlegar athugasemdir við það. Básar væru ekki til nema vegna þess að Útivist hefur verndað svæðið og því verður lögð áhersla á að settar verði mjög strangar kröfur um hvers konar þjónusta megi vera þarna. Útivist getur sótt um lóð þarna t.d. fyrir móttökuhús fyrir dagsferðir. Skúli nefndi að skipulagsyfirvöld væru að reyna að rjúfa einokun á ákveðnum svæðum. Leggja áherslu á að Básar eigi að vera útivistarparadís þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum og ef þarna verða aukalóðir þurfi að hafa mjög strangar reglur.

Nokkrar umræður urðu um málið og var mörgum uggur í brjósti.

 

Formaður félagsins kynnti nýjan grunn fyrir fararstjórapunkta sem að uppistöðu er safn Steinars Frímannssonar. Þeir voru settir í aðgengilegra form en það gamla, þar er hægt að skoða staðsetningu á korti og alla punkta innan þess svæðis sem valið er. Gert er ráð fyrir að virkir fararstjórar fái lykilorð sem gildir fyrir árið. Valinn hópur sjái um ritstjórn og geti sett efni inn frá þeim sem vilja bæta efni við grunninn.

 

Brú yfir Markarfljót: Þórarinn sýndi mynd af verðlaunatillögu að brú yfir Markarfljót. 170 metra löng brú á strengjum og mjög fínleg í allri smíði. Friðbjörn Steinsson spyr hvort hægt eigi að vera að fara yfir á fjórhjólum. Útivist hefur lagt áherslu á að hvorki eigi að vera hægt að aka mótorhjólum né fjórhjólum þar yfir en hægt verði að flytja sjúklinga á mjög litlu fjórhjóli. Fallið var frá aðgengi sjúkrabíla um brúna. Aðgangur inn á brúna verði þannig að aðeins einn maður geti smeygt sér inn í einu

 

40 ára afm.æli félagsins: Skúli H. Skúlason minnti á að félagið á stórafmæli og hefst afmælisveislan á laugardag með teiti. Á sunnudag er hefðbundin afmælisganga á Keili og nú í gömlu göngufötunum og svo heldur afmælisveislan áfram allt árið í ferðum og með fleiri viðburðum eins og kynnt er í ferðaáætlun.

 

Formaður félagsins sleit fundinum með ósk um að komandi ár verði eftirminnilegt, ekki bara fyrir þá baráttu sem fyrir höndum er.