Útivistarferðir fyrir fjölskylduna

10. desember 2018

Fátt er skemmtilegra en að fara með börnin út í náttúruna og upplifa umhverfið með þeirra augum. Börn geta verið útivistarjaxlar svo lengi sem þau hafa eitthvað áhugavert að fást við. Þess vegna fer Útivist á hverju ári í góðar fjölskylduferðir þar sem áhersla er lögð á barnvæna útivist. Hér að neðan eru nokkrar af þeim ferðum í dagskrá Útivistar sem henta börnum.

Fjölskylduhjólaferð: Börn, hjól og grill – Heiðmörk

4. maí 2019 kl. 10.00

Ævintýrin gerast í Heiðmörk – takið daginn frá. Við ætlum að hjóla upp í Heiðmörk þar sem við grillum og höfum gaman. Krakkar á öllum aldri velkomnir og endilega taka mömmu, pabba, afa og ömmu með í skemmtilega hjólaferð.

Allir velkomnir. Ekkert þátttökugjald.

 

Útivistargírinn - Arnarfell og Bæjarfell

15. maí 2019 kl 18.

Gangan hefst á bílaplani undir Bæjarfelli. Gengið verður hvorutveggja á Arnarfell og Bæjarfell en síðan að byggingarstað Krýsuvíkurkirkju þar sem saga hennar verður rakin í stuttu máli. Um er að ræða þægilega kvöldgöngu og við hvetjum alla fjölskylduna til þess að taka þátt.

Sameinast er í bíla við Sjálandsskóla og lagt af stað klukkan 18:00.

Athugið að þátttaka í Útivistargírnum er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

 

Fjölskylduferð í Bása

7. – 10. júní 2019 (Hvítasunnuhelgi)

Þó allar helgar séu fjölskylduhelgar í Básum, verður þessa helgi lögð enn meiri áhersla en venjulega á að hafa þetta sannkallaða fjölskylduferð með skemmtilega dagskrá fyrir börn og fullorðna.  Umhverfi Bása er sannkallað ævintýraland þar sem börnin geta leikið frjáls og upplifað fallega náttúru.

 

Ævintýri við Strút

28. júlí – 1. ágúst 2019

Ævintýrið við Strút – bækistöðvarferð fyrir krakka og mömmur, ömmur, pabba, afa, frænkur og frændur.

Hálendið í kringum Strútsskála verður kannað, farið verður í Strútslaug, ætt upp og niður fjöll og firnindi, stiklað yfir ár og leitað að hellisskútum. Farið í ratleik, föndrað, haldnar kvöldvökur og kveiktur varðeldur. Það verður glens og gaman. Öll gil og krókar í nágrenni skálans verða skoðuð hátt og lágt, stunduð listsköpun úti í náttúrunni, teiknaðar myndir, búnar til sögur, samin lög og sungið, lesnar sögur og samin ljóð.

 

Fjölskylduferð í Bása í Vetrarfríinu

25. - 27. október 2019

Ferðin verður skipulögð þannig að börnin skemmti sér vel og hafi nóg fyrir stafni. Tímanum varið í könnunarferðir um svæðið, þrautir og leiki. Á kvöldin verður spilað, leikið, efnt til sögustunda og himininn kannaður allt eftir því hvernig veðrið verður. Farið verður í ratleik á heimleiðinni.

 

Aðventuferð

29. nóvember – 1. desember 2019

Aðventuferðirnar í Bása eru alltaf frábær skemmtun bæði fyrir börn og fullorðna. Vetrarríkið skartar sínu fegursta og einhverjum sögum fer af því að jólasveinum bregði fyrir í fjöllunum og jafnvel fleiri meðlimum þeirrar fjölskyldu. Þegar skyggja tekur verður sest að jólahlaðborði og blásið til kvöldvöku.Greinar og ferðasögur