Raðganga 2017: Strandganga frá Reykjavík að Hvalfjarðarbotni

Raðgöngurnar hafa alla tíð verið stór þáttur í ferðaáætlun Útivistar. Þær gefa fólki færi á að kynnast landinu á sérstakan hátt og oft myndast samheldinn hópur í slíkum göngum. Einar Egilsson, einn af frumkvöðlum félagsins, byrjaði með raðgöngur sem strax hlutu miklar vinsældir. Einari var sjórinn ávallt kær og margar raðgöngurnar voru með ströndinni. Strönd Reykjaness og Hvalfjarðar hefur verið gengin oftar en einu sinni, en sennilega er þetta í fyrsta skiptið sem leiðin er gengin nánast í samfellu.

 

Í raðgöngu vorsins 2017 verður haldið áfram að ganga með ströndinni og verður gengið frá Reykjavík og upp í Hvalfjarðarbotn í átta áföngum. Byrjað verður í Reykjavík um miðjan janúar og ströndinni fylgt eftir því sem mögulegt er og endað í Hvalfjarðarbotni í lok apríl. Leiðin liggur skammt frá alfararleið, en það er talsverður munur á að aka um veg og horfa yfir strandlínuna eða að ganga og upplifa öll hin smáu atriði sem ber fyrir augu göngumannsins.

 

Leiðin liggur um Álfsnes, Kollafjörð, Kjalarnes, Hvalfjarðareyri, Maríuhöfn og áfram inn í botn fjarðarins. Á leiðinni er margt að sjá og ýmsar sögur sagðar. Gengið verður um víkur og voga, gamlan þjóðveg, forna verslunarstaði, herstöðvar frá stríðstímum, og marga aðra áhugaverða staði.

 

Göngurnar eru léttar og ættu að hæfa hverjum þeim sem stunda göngur og eru allir velkomnir.