Páskagöngur

Í páskagöngu Útivistar er gengið á milli staða sem tengjast menningu og sögu fyrri alda og höfðu mikla þýðingu í trúarlífi landsmanna. Gangan hefst við Strandarkirkju í Selvogi og endar við Kaldaðarnes. Ekki verður gengin hefðbundin leið því þá þyrfti að fara á ferju yfir Ölfusá. Þess vegna verður farið yfir Óseyrarbrú að Eyrarbakka og þaðan í Kaldaðarnes.

 

Sagan segir að skip hafi verið að koma frá Noregi með smíðavið í nýtt hús. Skipið lenti í háska og hét skipstjórinn því að ef skipverjar kæmust lífs af myndi hann byggja kirkju þar sem þeir kæmu að landi. Svo fór að þeir sáu engill sem beindi þeim inn á vík þar sem þeir náðu að lenda skipinu. Víkin er síðan nefnd Engilsvík. Skipstjóri stóð við orð sín og smíðaviðurinn var notaður til að byggja kirkju á Strönd í Selvogi. Strandarkirkja hefur lengi þótt góð til áheita.

 

Í kaþólskum sið var stór og mikill kross í Kaldaðarnesi sem allir áttu að vitja að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Oft var löng og erfið ferð að krossinum. Þeir sem minni máttu sín, sérstaklega konur, þurftu aðeins að sjá krossinn, enda ættu þær ekki að vera of lengi í burtu frá verkum sínum og skyldum. Fólk af Suðurnesjum sá krossinn frá hinni fornu eldstöð Hnúkum á Selvogsheiði. Þar heitir Kvennagönguhólar. Krossinn í Kaldaðarnesi var tekinn niður við siðaskiptin þar sem lútherstrú bannaði alla helga dóma.