Jógaferð frá Þjórsárdal að Laxárdal

Þjórsárdalurinn er stór, víðáttumikill og fagur. Eldsumbrot nágrennisins eru sem rauður þráður í sögu dalsins og má þar nefna Þjórsárhraunið sem rann fyrir um 8000 árum og er stærsta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld. Það á upptök sín við Heljargjá og liggur undir fjölmörgum nýrri hraunum í dalnum. Dalurinn fór því sem næst í eyði eftir Heklugosið 1104 þegar fjölmargir bæir grófust í ösku, þar á meðal bærinn Stöng. Í næsta nágrenni við Stöng er Gjáin, en hún er án vafa ein af perlum svæðisins sem gengið verður um. Þar áttu Gaukur á Stöng og Þuríður á Steinastöðum leynilega fundi endadæmalaust fallegur og kyrrlátur staður.

Fleirri náttúruperlur verða á leið okkar í ferðinni og fjölbreytnin er mikil. Allt frá næst hæsta fossi landsins, Háafossi að lygnum ám og lækjum. Frá heitum uppsprettum, söndum og gervigígum að grasigrónum dölum og stórkostlegum giljum. Gljúfur Grjótár, Skillandsár og Stóru-Laxá við Hrunakrók verða líka skoðuð. Hvarvetna eru hentugir staðir til að stunda jóga, hugleiðslu, slökun og öndunaræfingar í hreina loftinu og kyrðinni. Þetta eru nýjar slóðir í áætlun Útivistar þar sem nyrsti hluti Þjórsárdals er skoðaður og svæðið vestan hans.