Á slóðum landnámskvenna

Landnámabók er rakið landnám Íslands hringinn í kringum landið út frá bústað þeirra sem þar eru fyrst nefnd, Ingólfs Arnarsonar og Hallveigar Fróðadóttur í Reykjavík. Í Landnámu eru 430 landnámsmenn nafngreindir. Af þeim eru 14 konur skráðar fyrir landnámi, flestar á Suður- og Vesturlandi frá Öræfum í Hrútafjörð.

Í einni af þemagöngum ársins munum við kynnast nokkrum fræknum landnámskonum sem hér námu land á níundu öld. Þetta eru þær Þórunn sem nam Heklurætur við Næfurholt og Haukadal, Geirríður í Borgardal á Snæfellsnesi, Arnbjörg, Þórunn og Þuríður spákona sem námu samliggjandi jarðir í Borgarfirði, Ásgerður Asksdóttir sem nam land frá Seljalandi inn að Steinsholtsá og síðast en ekki síst Auður djúpúðgu á Hvammi í Dölum.

Í Landnámu Hauksbókar er sérstök lýsing á hvaða reglur giltu um landnám kvenna: „En þat var mælt, at kona skyldi eigi víðara nema land en leiða mætti kvígu tvævetra várlangan dag sólsetra millim, hálfstalið naut ok haft vel.“ Hvort að þessi regla var algild er óvíst en hitt er víst að heimildir um landnám kvenna gefa til kynna að oft námu þær góðar jarðir í eigin nafni.. Af því má einnig álykta að konur gátu verið jafnvígar körlum og töldust sumar til höfðingja í sínu héraði líkt og Auður djúpúðga í Dölunum.