Everesthópur 2021

Dags:

lau. 30. jan. 2021 - fös. 31. des. 2021

Brottför:

Göngulýsingar fyrir Everest hópinn

Athugið að áætlun einstakra ferða getur breyst en aldrei til verri vegar. Miðað er við að ferðir séu síðasta laugardag hvers mánaðar, en geta færst til með tilliti til veðurspár.

30.1. Akrafjallshringur – dagsferð
Geirmundartindur – Háihnúkur

Gangan hefst við bílastæði við vatnsból Akraness. Genginn er hringur eftir fjallsbrúninni uppá Geirmundartind og áfram með brúnum að Háubungu. Þaðan liggur leiðin niður á bílastæði aftur. Skemmtileg og auðveld ganga.

Mesta hæð er 643m, gönguhækkun er um 780m. Göngulengd er um 15 km og göngutími 5 – 6 klst.

27.2. Búrfell í Þingvallasveit - dagsferð

Búrfell er hluti af fjallahring sem umlykur þingstaðinn og þaðan er tilkomumikið útsýni. Gangan hefst við Brúsastaði í Þingvallasveit. Gengið er til norðvesturs frá bænum þar til komið er að Öxará. Þar er farið yfir smálæk og stefnan tekin á Búrfell. Af fjallinu er gengin svipuð leið til baka.

Mesta hæð er 783m, gönguhækkun er um 650m. Göngulengd er um 12 km og göngutími um 6 klst.

27.3. Vestursúla og Norðursúla - dagsferð

Gangan hefst við bílastæðið að Glym. Í fyrstu er Leggjabrjót fylgt upp á Hrísháls að sandhryggnum við súlurnar. Þaðan er gengið á Vestursúlu og af henni yfir á Norðursúlu en af báðum fjalltoppum er ægifagurt útsýni. Af Norðursúlu er gengið niður og komið að nýju niður á Leggjabrjót.

Mesta hæð er 1086m, gönguhækkun er um 1300m. Göngulengd er um 18 km og göngutími um 8 klst.

22.4. Móskarðshnúkar – Laufskörð - dagsferð 

Gangan hefst við göngubrú á Skarðsá. Stefnan er tekin á Bláhnúk sem er skammt neðan við Móskarðshnúkana og þaðan er haldið beint upp í Móskörðin. Frá þeim er farið á hæsta tindinn og í stað þess að halda niður að nýju er næsti hnjúkur klifinn. Skörðin eru þrædd alveg að Laufskörðum og farið yfir á Esju. Síðan verður farið yfir Laufskörð að nýju og niður með vestustu eggjum, einstakur stuðlabergsfoss skoðaður á leiðinni aftur að bílastæðinu.

Mesta hæð er 807m, gönguhækkun er um 870m. Göngulengd er um 15 km og göngutími um 5 klst.

23.5. Eyjafjallajökull - dagsferð

Farin verður svokölluð Skerjaleið upp hjá Grýtutindi á Þórsmerkurleið. Gengið verður upp á Litluheiði og þaðan verður stefnan tekin á Skerin sem er gossprunga sem stendur upp úr jöklinum langleiðina upp að Goðasteini sem er í 1580m hæð. Afar brött leið í byrjun.

Mesta hæð er 1580m, gönguhækkun er um 1450m. Göngulengd um 16 km og göngutími um 10 klst.

19.6. Snæfellsjökull - dagsferð

Snæfellsjökull er af sumum talin ein af sjö orkustöðvum jarðar.  Í skáldsögunni Leiðin að miðju jarðar er inngangur að iðrum jarðar um öskjuna í toppi fjallsins.. Gangan hefst á Jökulhálsi. Þegar upp er komið verður látið reyna á það hvort færi er á uppgöngu á hæsta tindinn, Miðþúfu og jafnvel hina tindana. Eitt er víst að allir verða að komast minnst einu sinni á Snæfellsjökul.

Mesta hæð er 1446m, gönguhækkun er um 1000m. Göngulengd er um 10 – 12 km og göngutími um 5 – 7 klst.

2.-4.7. Hrútfjallstindar – helgarferð

Stórkostleg ganga í hrikalegu jökulsorfnu alpalandslagi. Hrútsfjallstindarnir fjórir gnæfa yfir Skaftafellsjökli til vestur og Svínafellsjökuli í austur og yfir gnæfir Öræfajökull. Hæsti tindurinn er 1875 m.

Farið er á föstudegi og gist í Öræfasveit. Gengið er á Hrútsfjallstinda á laugardegi eða sunnudegi eftir veðri. Gengið er  að hluta til í línum. Búast má við 10 til 15 tíma göngu og þar er allra veðra von. Leiðin svíkur engan og útsýnið er stórkostlegt. Á sunnudegi/ mánudegi  er síðan ekið til baka.

Mesta hæð er 1875m, gönguhækkun er um 1750m. Göngulengd er um 25 km og göngutími um 13-16  klst.

13.7. Hengill – Vörðu-Skeggi – kvöldferð

Gangan hefst í Dyradal og gengið inn Klungrin. Þaðan er farið upp norðurhlíð Vörðu-Skeggja og upp á topp. Gengin verður hringleið og komið niður í Marardal og aftur að upphafsstað göngunnar.

Mesta hæð er 805m, gönguhækkun er um 500m. Göngulengd er um 12 km og göngutími um um 5 klst.

28.8. Heiðarhorn – Skarðshyrna – dagsferð

Ægifagurt útsýni er af Skarðsheiði sem lætur engan ósnortinn. Gangan hefst rétt við bæinn Efra-Skarð og þaðan liggur leiðin hjá Skessusæti á Skarðshyrnu. Frá henni er gengið norður eftir hryggnum á Heiðarhornið. Þaðan verður svo gengin stutt leið til að berja augum norðurhlíðar Skarðsheiðar og Skessuhorn. Gengið er niður í Skarðsdal á bakaleiðinni og að upphafsstað göngu.

Mesta hæð er 1054m, gönguhækkun er um 1100 m. Göngulengd er um 11 km og göngutími um 8 klst.

24.-26.9. Strútur – Mælifell – helgarferð

Fjallabak syðra er heimur út af fyrir sig. Farið er á föstudegi og gist í skála Útivistar við Strút. Á laugardeginum er gengið á Strút sem er rétt hjá skálanum en hann er 968m hár. Að fjallgöngu lokinni fara þeir sem vilja í Strútslaug áður en haldið er aftur í skálann (3 klst aukakrókur sem ef vel þess virði). Á sunnudegi verður gengið á Mælifell (799 m) áður en haldið er heim á leið. 

Mesta hæð er 968 m, gönguhækkun er um 600 m. Göngutími er um 7 klst á laugardeginum. Gengið er á Mælifell á leiðinni heim á sunnudeginum. 

30.10. Hvalfell – dagsferð

Hvalfell myndaðist í gosi undir jökli, það stíflaði dalinn svo að ofan við það er djúpt og mikið vatn, Hvalvatn. Flest örnefni á þessu svæði vitna í hvali, hverju sem það sætir. Frá Stóra-Botni í Botnsdal liggur leiðin upp með Botnsá að austanverðu að fossbrún hæsta foss landsins, Glyms. Þaðan verður stefnt á topp Hvalfells. Af fjallinu er ágætis útsýni og gaman að kíkja af austurbrún þess yfir Hvalvatn. Farið niður aftur að vestanverðu í Hvalskarð milli Hvalfells og Botnssúlna. 

Vegalengd 13-14 km. Mesta hæð 852 metrar en hækkun 800 m. Göngutími 6 klst.

27.11. Hátindur- Hábunga - Skálatindur-Laufskörð -dagsferð

Gangan hefst í Grafardal þaðan sem leið liggur upp á Hátind. Af Hátindi er gengið til norðurs á Hábungu sem er hæsti punktur Esjunnar. Kíkt yfir í Kjós og Hvalfjörð. Þaðan er stefnan tekin á ógnvekjandi Laufskörðin og eftir vestasta Móskarðshnjúknum niður að Skarðsá þar sem göngunni líkur við bílastæði.

Mesta hæð er 914m, gönguhækkun er um 900m. Göngulengd er um 15 km og göngutími er um 6-7  klst.

11.12. Heiðarból við Selfjall – stutt dagsferð

Gangan hefst á bílastæði rétt fyrir ofan Waldorfskólann í Lækjarbotnum. Gengið er yfir Selfjallið í Heiðarból. Þar verða haldin litlu jólin og uppskeruhátíð Everest gönguhópsins. Frá Heiðarbóli er gengið niður í sumarbústaðalandið og að upphafsstað göngu.

Mesta hæð er 269m, gönguhækkun er óveruleg. Göngulengd er um 4 – 5 km og heildartími um 3 klst.

Verð 49.000 kr.

Nr.