Fylgt úr hlaði

16. desember 2016

Enn á ný lítur Ferðaáætlun Útivistar dagsins ljós. Frá stofnun félagsins árið 1975 hefur það kappkostað við að bjóða félagsmönnum sínum upp á skemmtilegar ferðir um landið. Þannig vinnur félagið að einu af markmiðum sínum, að stuðla að útivist fóks í hollu og óspilltu umhverfi.  Að hausti eftir gott ferðasumar koma ferðanefndir félagsins saman og láta hugann reika um óbyggðir landsins, rifja upp skemmtilegar ferðir fyrri ára sem gaman væri að endurtaka og velta fyrir sér mögulegum nýjungum. Þannig verður ferðaáæltun ársins til úr hugmyndum og hugarflugi þeirra félagsmanna sem hafa tekið að sér það skemmtilega viðfangsefni að skipa ferðanefndir félagsins.

 

Spennandi raðgöngur og þemagöngur í áæltun dagsferða vekur sérstaka athygli. Við höldum áfram að ganga strandlengju landsins og verður núna gengið frá Reykjavík í Hvalfjarðarbotn. Gengið verður umhverfis Esjuna í nokkrum áföngum. Einnig verður sjónum beint að landnámskonum og landnámsjarðir þeirra sóttar heim. Loks má nefna skemmtilega syrpu af fjallgöngum sem nefnist „Tindur af tindi“.

 

Í ár bætist við nýr skáli í flóru Útivistar, en félagið hefur samið við Flugbjörgunarsveitina í Reykjavík um skála sveitarinnar í Tindfjöllum.  Tindfjallasel hefur staðið óklárað um nokkurt skeið en vösk sveit Útivistarmanna lauk við byggingu skálans síðastliðið haust. Tindfjöll eru spennandi svæði fyrir útivistarfólk. Fjallamenn með Guðmund frá Miðdal í broddi fylkingar sóttu mikið í þetta skemmtilega fjallasvæði og stunduðu þar meðal annars skíðamennsku af miklum móð. Skáli af þessari stærð opnar fyrir okkur margvíslega möguleika og við erum full tilhlökkunar að njóta þess sem þetta svæði býður upp á.

 

Í náttúru Íslands eru margir einstakir staðir. Sumstaðar er náttúran viðkvæm og þolir ekki mikinn ágang. Nokkur umræða var núna á dögunum í kjölfar þess að í sjónvarpsþætti var hulunni svipt af áhugaverðum stað sem margir telja að þoli ekki mikinn ágang. Áhyggjur af því eru skiljanlegar þó auðvitað megi deila um hvort rétt sé að halda slíkum stöðum leyndum með markvissum hætti. Hér má þó benda á að þetta er örugglega ekki eina perlan á landinu sem er á vitorði fárra, sumar þeirra eru viðkvæmar en aðrar þola mun meiri umferð en nú er. Kannski ættum við frekar að hafa áhyggjur af þeim stöðum sem einmitt eru á allra vitorði og fá heimsóknir þúsunda ferðamanna. Meðan ágangurinn er óviðráðanlegur á einstaka stöðum eru fáfarnar slóðir sem þola vel aukna umferð víðsvegar um landið. Útivist hefur leitast við að leggja sitt af mörkum í þessum efnum með því að skipuleggja nýjar gönguleiðir, byggja upp gönguskála á nýjum stöðum og skapa þannig tækifæri til ferðamennsku á nýjum slóðum.

 

Tækifærin til að dreifa álaginu eru ótal mörg, en til þess þarf skynsamlega stefnumótun og stýringu ferðamála. Þrátt fyrir mikla umræðu um þau mál hefur lítið sést af aðgerðum. Svo virðist sem stjórnvöld hafi látið tækifærin fram hjá sér fara hvert af öðru. Fjármagn til innviða ferðamannastaða er mikilvægur þáttur hvað þetta varðar, en þar fór mikill tími til spillis meðan þráttað var um svokallaðan náttúrupassa. Þrátt fyrir að mikla andstöðu víðsvegar í samfélaginu við þá lausn átti að keyra hana í gegn og þegar það gekk ekki var niðurstaðan sú að gera ekki neitt.  Við verðum að vona núna við upphafi nýs kjörtímabils að stjórnvöldum takist að koma þeim málum í skynsamlegan farveg sem tryggi nauðsynlegt fjármagn og skýra og góða stefnumótun við stýringu ferðamannastraumsins.

 

Skúli H. Skúlason

framkvæmdastjóri ÚtivistarGreinar og ferðasögur

 • Mynda-
  kvöld

  Myndakvöld

  Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.

  Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.

  Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.

  Öll herlegheitin kosta aðeins 1.500 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.

  Næstu ferðir

 • Jeppa-
  ferðir

  Jeppaferðir

  Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum. 

  Næstu ferðir

  3. mars 2018 - 4. mars 2018

  Fimmvörðuháls

  24. mars 2018 - 25. mars 2018

  Fjallabak nyrðra – Mælifellssandur

  7. apríl 2018 - 8. apríl 2018

  Fjallabak syðra

 • Fjalla-
  refir

  Fjallarefir

  Á námskeiðum Fjallarefa er gönguþrek markvisst byggt upp og þátttakendur kynnast fjölbreyttum gönguleiðum.

  Námskeið Fjallarefa er ætlað þeim sem áður hafa tekið þátt í námskeiðum og/eða eru í ágætis gönguformi. Námskeiðið felur í sér þrekgöngutíma, dagsferðir og helgarferð. Samhliða göngunum verður fræðsla þar sem þátttakendur safna í sarpinn hagnýtum upplýsingum sem tengjast útivist, til dæmis varðandi klæðnað, næringu, útbúnað og leiðarval. 

  Þrekgöngutímar eru á þriðjudögum og dagsferðir á laugardögum. Þátttakendur koma á eigin bílum á upphafsstað göngu en geta sameinast í bíla eftir hentugleikum.

  Hámarksfjöldi: 40 manns.

  Næstu ferðir

 • Everest

  Everest 2018

  Everest-hópur Útivistar er ætlaður fólki sem er í þokkalega góðu formi og vill reyna á sig í hressilegum fjallgöngum. Boðið verður upp á þríþætta dagskrá, sjá hér fyrir neðan:

  Kvöldgöngur á miðvikudögum kl.18 (1 ½ - 2 klst)
  10. janúar - 21. mars => 11 göngur
  5. september - 21. nóvember => 12 göngur

  Dagsgöngur – 2. laugardag í mánuði
  20. janúar – Akrafjall
  10. febrúar – Grindarskörð-Kistufell
  10. mars – Hrafnabjörg
  14. apríl – Skarðsheiði endilöng
  9. júní – Eiríksjökull
  8. september – sjö tindar Hafnarfjalls
  13. október – kringum Botnssúlur
  10. nóvember – Hengilssvæðið
  8. desember – jólaóvissuferð

  Helgarferðir
  10.-13. maí - Rótarfjallshnjúkur og Svínafellsfjall
  10.-12. ágúst – Ólafsfjörður-Hvanndalir-Héðinsfjörður

  Kvöldgöngurnar (23 talsins) eru innifaldar í skráningargjaldi sem er aðeins 30.000 kr. Verð í dagsgöngur er 4.900 kr. og í helgarferðir 9.800 kr.
  Fararstjórar eru Stefán Birgisson, Unnur Jónsdóttir, Reynir Þór Sigurðsson, Gylfi Arnbjörnsson og Kristjana Birgisdóttir. Á kantinum er svo Kristíana Baldursdóttir.

  Skráning á skrifstofu Útivistar, í síma 562 1000 eða með tölvupósti á utivist@utivist.is.

  Fyrstur kemur, fyrstur fær - fjöldinn verður takmarkaður

  Lokaður hópur – aðeins fyrir þá sem greiða skráningargjaldið

  Næstu ferðir

  10. mars 2018

  Hrafnabjörg

  10. maí 2018 - 13. maí 2018

  Rótarfjallshnjúkur og Svínafellsfjall

 • Útivistar-
  gírinn

  Útivistargírinn

  Ókeypis göngur í nágrenni höfuðborgarinnar

  Komdu þér í Útivistargírinn fyrir sumarið með samheldnum hópi Útivistarfólks og nýrri tólf vikna dagskrá. Útivistargírinn leysir af hólmi Útivistarræktina sem starfrækt hefur verið í um 20 ár.

  Dagskráin hefst 4. apríl og stendur til 20. júní. Hópurinn hittist vikulega á miðvikudögum klukkan 18:00 og gengur spennandi gönguleiðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti og eru nýliðar í útivist . Einnig er vant fólk hvatt til þess að taka þátt. Í þessum kvöldgöngum verður lögð áhersla á vinalegt andrúmsloft og kynningu á grunnatriðum í útivist og gönguferðum. Fjölbreytt starfsemi Útivistar, þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, verður einnig kynnt þátttakendum.

  Flestar göngurnar taka 2 – 4 klukkustundir. Þátttakendur sameinast í bíla og deila eldsneytiskostnaði.

  Kynningarfundur verður haldinn kl. 20:00 þann 28. mars.

  Þátttaka í göngunum er félagsmönnum Útivistar að kostnaðarlausu en skrá þarf þátttöku. Áhugasömum er bent á upplýsingar um skráningu á heimasíðu Útivistar. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og tekur röð þeirra mið af veðri og færð hverju sinni. Auglýst verður á vef Útivistar, á Facebook síðu félagsins og á póstlista hvert verður farið hverju sinni.

  Fjórir fararstjórar, Hrönn Baldursdóttir, Guðrún Svava Viðarsdóttir, Kristjana Kristjánsdóttir og Guðmundur Örn Sverrisson leiða þátttakendur Útivistargírsins. Óhætt er að segja að fararstjórahópurinn sé fjölbreyttur en samhentur og hlakkar til að taka vel á móti öllum þeim sem vilja komast í Útivistargírinn.

  Fylgstu með og skráðu þig á Facebook síðu Útivistargírsins.